Raufarhöfn

miðvikudagur, 23. mars 2011

Skóli án aðgreiningar getur virkað

Skóli án aðgreiningar hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Allavega eru Fésbókarvinir mínir duglegir að líka við og deila greinum um þetta málefni. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þessa umræðu hérna, heldur benda á svolítið sem mér finnst enginn tala um - nefnilega aðalatriðið.

Við sem störfum við kennslu höfum kynnst fullt af stefnum, hugmyndum og kerfum sem eiga að gera skólastarfið betra. Ég er alls ekki hrifinn af öllu því sem ég hef kynnst en tel þó að við réttar aðstæður geti allar, allavega flestar, þessar stefnur, hugmyndir og kerfi virkað. Til dæmis tel ég að hugmyndin um opinn skóla geti virkað í réttu húsnæði, með starfslið sem trúir á stefnuna og ég held að nemendahópurinn megi heldur ekki vera of stór. Sjálfur myndi ég hins vegar ekki vilja kenna í svoleiðis skóla. Ég gæti tekið fleiri dæmi, t.d. eitthvað úr agakerfafrumskóginum, en nenni því ekki. Hugsa að ég skrifi samt einhverntímann um agakerfi. Wait for it!

Skóli án aðgreiningar er stefna sem getur virkað. Það er ekki spurning í mínum huga. En til þess að skóli án aðgreiningar verði sannarlega skóli án aðgreiningar þarf að eyða peningum. Og mikið af þeim. Bekkir þurfa að vera minni, kennsluskylda lægri og grunnlaun nógu há til þess að kennarar þurfi ekki að vinna yfirvinnu. Þar að auki þarf að bæta við stuðningsfulltrúum, iðjuþjálfurum og fleiri sérfræðingum sem geta aðstoðað nemendur með sérþarfir sem og kennarana sem kenna þessum nemendum. Því við skulum ekki gleyma að kennarar eru almennt ekki menntaðir til þess að sinna nemendum með sérþarfir.

Svo þurfum við auðvitað að bæta við ýmsum húsbúnaði, tækjum og tólum sem þarf til þess að allir sitji við sama borð (því ekki allir geta setið við sams konar borð sjáiði til).

Skóli án aðgreiningar getur aldrei staðið undir nafni ef hann fær ekki fjármagn til þess. Það er aðalatriðið. Stefnan hljómar vel, en forsendurnar til þess að hún virki eru einfaldlega ekki til staðar. Því miður.

4 ummæli:

Kristjana sagði...

Hvað telst vera skóli án aðgreiningar?

... sagði...

Skóli án aðgreiningar snýst í stuttu máli um það að allir eiga að geta stundað nám í skólanum í sínu heimahverfi. Fótboltastrákurinn á fimmtu hæð og fjölfatlaði strákurinn á fyrstu hæð.

Kristjana sagði...

Þannig ef sérskóli er í heimahverfi fjölfatlaða einstaklingsins er hann þá í skóla án aðgreiningar? Ef nemandi með þroskahömlun er með allt aðrar bækur og lærir ekki landafræði er það þá skóli án aðgreiningar?

... sagði...

Samkvæmt menntastefnu landsins eru allir skólar nú skólar án aðgreiningar. Það er búið að leggja niður alla sérskóla nema einn (ef ég man rétt).
Stefnan snýst um að allir eiga að geta verið í skóla með sínum jafnöldrum í sínu heimahverfi. En auðvitað þurfa margir nemendur aðlagað námsefni og mikinn stuðning.

Gagnrýnin á þessa stefnu hefur einmitt verið sú að það er furðulegt að láta 14 ára þroskaheft barn vera í bekk með jafnöldrum sínum þegar það hefur engar forsendur til að tengjast þeim vináttuböndum á jafnréttisgrundvelli þar sem þroski þess er kannski á við 6 ára barn. Enda myndum við aldrei setja 6 ára barn í 8. bekk.