Raufarhöfn

föstudagur, 25. mars 2011

Jóa og Jóhönnu helgi

Ég verð einn í kotinu með þessari skvísu yfir helgina. Ekki amalegt.

miðvikudagur, 23. mars 2011

Skóli án aðgreiningar getur virkað

Skóli án aðgreiningar hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Allavega eru Fésbókarvinir mínir duglegir að líka við og deila greinum um þetta málefni. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þessa umræðu hérna, heldur benda á svolítið sem mér finnst enginn tala um - nefnilega aðalatriðið.

Við sem störfum við kennslu höfum kynnst fullt af stefnum, hugmyndum og kerfum sem eiga að gera skólastarfið betra. Ég er alls ekki hrifinn af öllu því sem ég hef kynnst en tel þó að við réttar aðstæður geti allar, allavega flestar, þessar stefnur, hugmyndir og kerfi virkað. Til dæmis tel ég að hugmyndin um opinn skóla geti virkað í réttu húsnæði, með starfslið sem trúir á stefnuna og ég held að nemendahópurinn megi heldur ekki vera of stór. Sjálfur myndi ég hins vegar ekki vilja kenna í svoleiðis skóla. Ég gæti tekið fleiri dæmi, t.d. eitthvað úr agakerfafrumskóginum, en nenni því ekki. Hugsa að ég skrifi samt einhverntímann um agakerfi. Wait for it!

Skóli án aðgreiningar er stefna sem getur virkað. Það er ekki spurning í mínum huga. En til þess að skóli án aðgreiningar verði sannarlega skóli án aðgreiningar þarf að eyða peningum. Og mikið af þeim. Bekkir þurfa að vera minni, kennsluskylda lægri og grunnlaun nógu há til þess að kennarar þurfi ekki að vinna yfirvinnu. Þar að auki þarf að bæta við stuðningsfulltrúum, iðjuþjálfurum og fleiri sérfræðingum sem geta aðstoðað nemendur með sérþarfir sem og kennarana sem kenna þessum nemendum. Því við skulum ekki gleyma að kennarar eru almennt ekki menntaðir til þess að sinna nemendum með sérþarfir.

Svo þurfum við auðvitað að bæta við ýmsum húsbúnaði, tækjum og tólum sem þarf til þess að allir sitji við sama borð (því ekki allir geta setið við sams konar borð sjáiði til).

Skóli án aðgreiningar getur aldrei staðið undir nafni ef hann fær ekki fjármagn til þess. Það er aðalatriðið. Stefnan hljómar vel, en forsendurnar til þess að hún virki eru einfaldlega ekki til staðar. Því miður.

mánudagur, 14. mars 2011

Allt að gerast!

Við í Norðurþingi einokum fréttamiðlana í dag.

Kópasker er á kafi eftir sandstorm.

Raufarhöfn hrópar úlfur úlfur á heimsbyggðina.

Erlingur á hótelinu segir frá kórónu Raufarhafnar

Ég er einfaldlega búsettur í heitasta sveitarfélagi landsins.

sunnudagur, 13. mars 2011

Snúum vörn í sókn

Ég sé fullt af tækifærum hér á Raufarhöfn. Tækifæri til að efla atvinnulíf og fá fleira fólk hingað. Náttúrugripasafn Íslands hefur verið heimilislaust í mörg ár en gæti vel komið inn í gamla mjöglhúsið eða gömlu tankana. Þar kemst beinagrind af hval auðveldlega fyrir auk allra uppstoppuðu dýranna. Ég sé fyrir mér repjuræktun á Sléttunni sem skilaði m.a. af sér ódýrri lífdíselolíu fyrir Norðausturland. Ég sé fyrir mér vindtúrbínur uppi í Ás sem sæju bæjarbúum fyrir ódýru rafmagni. Ég sé líka margt sem við þurfum að laga, smátt og stórt.

Nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn hér á Raufarhöfn. Á miðvikudag kemur bæjarstjórinn hingað og heldur íbúafund. Til þess að skoðanir og vilji okkar Raufarhafnarbúa komi skýrt fram á fundinum hefur verið ákveðið að halda undirbúningsfund mánudaginn 14. mars kl. 20:00 í skólanum.

Markmið fundarins er að Raufarhafnarbúar komi saman og ræði málefni staðarins, um úrbætur og sóknarfæri. Þannig getum við komið fram sem sterk heild á íbúafundinum með hugmyndir og tillögur um framtíð Raufarhafnar sem bæjarstjórinn getur tekið með sér og unnið út frá.

Ef fundurinn gengur vel er jafnvel stefnt að því að gera þetta að reglulegum viðburði. Þannig væri kominn vísir að íbúaráði Raufarhafnar sem getur komið með tillögur til bæjarstjórnar og þrýst á um úrbætur. Við Raufarhafnarbúar höfum mest um framtíð staðarins að segja. Munum fleyg orð Orms Óðinssonar:

Það gerist ekki neitt á Íslandi nema maður geri það sjálfur!

Vonast til að sjá sem flesta annað kvöld uppi í skóla.

föstudagur, 11. mars 2011

Birna Lind og Júlía Rós vinkona hennar komust í fréttirnar í gær. Sparisjóður Þórshafnar og nágrennis ákvað að loka útibúi sínu hér á Raufarhöfn og fléttuðust þær vinkonur á óvæntan hátt inn í fréttaflutninginn. Smellið hér og sjáið þær vinkonur 1:20 inn í myndbandið.

fimmtudagur, 10. mars 2011

Öskudagurinn reis upp frá dauðum í mínum huga í gær. Síðustu ár hafa verið vonbrigði. Ég hef rölt á milli verslana með krökkunum og rekist á pirrað starfsfólk sem nennir ekki að hlusta á söng, heldur afhendir nammið strax til að losna við krakkana. Svo eru þeir sem hengja upp "Allt nammi búið" skilti fyrir hádegi. Ég veit ekki hvor tegundin er verri. Auðvitað eru þó margir sem taka öllum börnum vel og líta ekki á þetta sem truflun.

Í gær var krökkunum afskaplega vel tekið í fyrirtækjum á staðnum og þau sneru heim með bros á vör. Síðar um daginn hélt foreldrafélagið Velvakandi svo ball þar sem börn og fullorðnir mættu í búningum og dönsuðu. Einnig voru veitt verðlaun fyrir bestu búningana og kötturinn sleginn úr tunnunni. Kjartan Ísak var tunnukóngur að þessu sinni og svipurinn á honum þegar tunnan fór í sundur var óborganlegur - eins og hann hafði gert eitthvað af sér.Það var svo ekki leiðinlegt að enda daginn uppi á hóteli hjá Ella og Ágústu þar sem fullorðnir fengur sér hina heimsfrægu Skinnalónsborgara en börnin pizzu.Net-tíska

Útvíðar buxur verða í tísku í sumar.
Síðast þegar mér fannst virkilega töff að vera í útvíðum buxum var ég í unglingadeildinni í Öldó, 8. bekk. Ég man að ég fór til Edinborgar með vasana fulla af fermingarpeningum og spurði afgreiðslumann í tískuvöruverslun hvort hann ætti útvíðar buxur. "Ef þú hefðir mætt fyrir svona 20 árum hefðum við átt þær" var svarið.


Bloggið er eins og útvíðar buxur. Það kemur alltaf aftur. Þú tekur tímabil þar sem þú prófar MySpace, pokabuxur sem hylja aðeins hálfan rassinn á þér, Facebook og skinny buxur. En bloggið og útvíðar buxur eru fastir punktar sem heimurinn snýr sér alltaf aftur að.

Ég er byrjaður að blogga aftur og ætla að fá mér útvíðar buxur við fyrsta tækifæri.