Raufarhöfn

sunnudagur, 13. mars 2011

Snúum vörn í sókn

Ég sé fullt af tækifærum hér á Raufarhöfn. Tækifæri til að efla atvinnulíf og fá fleira fólk hingað. Náttúrugripasafn Íslands hefur verið heimilislaust í mörg ár en gæti vel komið inn í gamla mjöglhúsið eða gömlu tankana. Þar kemst beinagrind af hval auðveldlega fyrir auk allra uppstoppuðu dýranna. Ég sé fyrir mér repjuræktun á Sléttunni sem skilaði m.a. af sér ódýrri lífdíselolíu fyrir Norðausturland. Ég sé fyrir mér vindtúrbínur uppi í Ás sem sæju bæjarbúum fyrir ódýru rafmagni. Ég sé líka margt sem við þurfum að laga, smátt og stórt.

Nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn hér á Raufarhöfn. Á miðvikudag kemur bæjarstjórinn hingað og heldur íbúafund. Til þess að skoðanir og vilji okkar Raufarhafnarbúa komi skýrt fram á fundinum hefur verið ákveðið að halda undirbúningsfund mánudaginn 14. mars kl. 20:00 í skólanum.

Markmið fundarins er að Raufarhafnarbúar komi saman og ræði málefni staðarins, um úrbætur og sóknarfæri. Þannig getum við komið fram sem sterk heild á íbúafundinum með hugmyndir og tillögur um framtíð Raufarhafnar sem bæjarstjórinn getur tekið með sér og unnið út frá.

Ef fundurinn gengur vel er jafnvel stefnt að því að gera þetta að reglulegum viðburði. Þannig væri kominn vísir að íbúaráði Raufarhafnar sem getur komið með tillögur til bæjarstjórnar og þrýst á um úrbætur. Við Raufarhafnarbúar höfum mest um framtíð staðarins að segja. Munum fleyg orð Orms Óðinssonar:

Það gerist ekki neitt á Íslandi nema maður geri það sjálfur!

Vonast til að sjá sem flesta annað kvöld uppi í skóla.

1 ummæli:

Berglind Mjöll sagði...

Flott blogg og flott framtak hjá þér :)